Monday, January 21, 2013

Bók #5: First Shift - Legacy

Fimmta lesna bókin heitir First shift - Legacy og er sjötta bókin í seríu sem nefnist Wool. Þessi bók er aðallega seld sem rafbók. Fyrri fimm bækurnar má fá á góðum kjörum á einu bretti. Höfundur er Hugh Howie.


Bókin fékkst lánuð frá mágkonu minni. Hún er 238 síður skv. Amazoni en á Kyndlinum hefur maður litla tilfinningu fyrir slíkum hlutum. Hún er frekar fljótlesin og ég kláraði þetta efni á þremur kvöldum.

Það hefur ýmsa kosti að lesa á kyndlinum. Það er t.d. þægilegt að lesa uppi í rúmi. Það er ekkert vandamál að liggja á hliðinni og láta fara vel um sig. Það er líka hentugt að grípa í kyndilinn þegar maður er að sinna stelpunni og getur lagt apparatið í flýti frá sér án þess að týna staðnum.

Það eru þó ókostir. Maður hefur minni tilfinningu fyrir bókinni. Ég verð líka að viðurkenna að ég sakna kápunnar. Þetta er ekki alveg sama upplifunin og að lesa holdlega-bók. Ljósmyndun "bókarinnar" verður heldur ekki ýkja áhugaverð..



Í Wool seríunni kynnumst við mannkyninu í framtíðinni. Þetta er sem sagt vísindaskáldsaga. Fólk býr í sílói (tunnu? sívalningi? sarpi?) ofan í jörðinni. Fyrstu bækurnar (sem eru margar mjög stuttar) fjalla um leit fólks að sannleikanum um sílóið. Er eitthvað fyrir utan? Af hverju er fólkið í þessari stöðu?

Á efstu hæð sílósins er skjár þar sem íbúar geta séð út. Ástandið úti er frekar eymdarlegt. Enginn fer út nema í þar til gerðum galla og jafnvel þá endast menn ekki lengi. Menn eru hins vegar sendir út af yfirvöldum og virkar það sem eins konar dauðarefsing. Föngum er þá um leið uppálagt að þrífa linsurnar á myndavélunum sem vísa út og bæta þannig útsýni íbúanna.



Í fyrstu bókinni fylgjumst við með lögreglustjórnaum Holston. Hann reynir að sinna skyldum sínum er þó fyrst og fremst að rannsaka hvað olli því að eiginkona hans fór sjálfviljug "út að þrífa". Að þessu leyti minnir bókin á eina frægustu og bestu vísindaskáldsögu í heimi: Caves of steel eftir Isac Asmiov. Hér er líka ákveðið dystópíuþema sem höfundur vinnur mjög vel.


Legacy-bókin sem ég var að klára er prequel (forsaga?). Hún segir frá tilurð sílósins og hvað olli því að mannkynið býr við þennan kost. Mér fannst þessi saga sú lakasta í flokknum og ekki ná að skapa sömu spennu og sérstaka andrúmsloft sem finna má í hinum fyrri fimm bókunum. Ég gef henni þrjár stjörnur af fimm mögulegum. Flokknum í heild gef ég fjórar stjörnur.


Algengt umkvörtunarefni unglinga sem lesa lítið er að erfitt sé að finna efni sem höfðar til þeirra. Ég myndi segja að þessi bókaflokkur sé mjög unglingavænn. Ég mæli með WOOL seríunni fyrir áhugamenn um vísindaskáldsögur og unglinga. Ég mæli ekki með WOOL fyrir móður mína. Fyrsta bókin er bara 58 síður og kostar ekki krónu. Eftir hverju ertu að bíða? Til athugunar: Ekki er nauðsynlegt að eiga kyndil til að lesa rafbók frá Amazon. Mjög einfalt er að lesa bók af tölvuskjá í gegnum vef Amazon.

No comments:

Post a Comment