Friday, January 4, 2013

Bók #2: HÉR LIGGUR SKÁLD

Á þremur kvöldum las ég bók Þórarins Eldjárns sem nefnist HÉR LIGGUR SKÁLD. Bókin er frekar stutt, 164 síður. Leturgerðin er Palatino Linotype, 10 punktar. Ég las áritað eintak sem jók gæði lestursins um svona 27 prósent.

Efni bókarinnar byggist á íslendingaþættinum um Þorleif Ásgeirsson jarlsskáld. Heimild. Bókin flokkast því væntanlega sem söguleg skáldsaga. Jafnvel nútíma-íslendingasaga?

Í þeim anda er bókin torlesin framan af. Mér fannst erfitt að setja mig inn í ættartrén og hinar stríðandi fylkingar í austur og vestur Svarfaðardal. Þegar höfundur er búinn að raða öllum leikmönnum á borðið færist þó fjör í leikinn. Seinni hlutinn er mjög skemmtilegur og ég gat varla lagt bókina frá mér.

Söguhetjan er sem sagt umræddur Þorleifur. Frásögn í fyrstu persónu frá hans sjónarhóli hefst þó ekki fyrr en á síðu 65. Þar á undan erum við sett inn í mál í Svarvaðardal. Okkar maður tekur þátt í deilum þar sem enda með því að hann verður að flýja land. Þar tekur við skemmtilegasti hluti sögunnar.

Niðurstaða: Ég hafði gaman af lessari bók. Margt er mjög fyndið. Til dæmis persónan Klaufi, sem er mjög klunnalegur og vonlaus sem barn, en kemur svo í ljós að mikið gagn er af honum ef leggjast þarf í víking. Bara ef þessi fítus væri mögulegur í dag. Svo er skemmtilegt hvernig ómögulegir hlutir eru látnir gerast eins og ekkert sé sjálfsagðra. Menn berjast við drauga og níðkvæði sem flutt er af söguhetju hefur þann eiginleika að andlag níðsins þjáist af ofsakláða.


Ég gef bókinni HÉR LIGGUR SKÁLD þrjár stjörnur af fimm mögulegum.

No comments:

Post a Comment