Ég las bókina FRJÁLSAR HENDUR - kennarahandbók á tveimur kvöldum. Umrædd bók er eftir Helga Ingólfsson (full disclosure: Helgi er samkennari minn við Menntaskólann í Reykjavík). Bókin er því fljótlesin, rétt rúmlega 200 síður. Hún er gefin út af Óðinsauga 2012.
Ég fékk bókina á Borgarbókasafni og því er slíkur ólekker miði framan á henni sem tjáir takmarkaðan lánstíma vegna væntra vinsælda bókarinnar. Þessi límmiði dró úr lestraránægjunni um svona 13% og skemmdi fyrir fagurfræðilegum markmiðum kápunnar.
Að því sögðu tel ég titil bókarinnar og kápu hennar nokkð misheppnaða. Titillinn segir beinlínis að um kennarahandbók sé að ræða. Ekki er víst að allir sem reka augun í bókina átti sig á að hún er skáldsaga. Myndin á kápunni er af listaverki eftir Stefán Jón Brimar Sigurjónsson sem heitir Reikningsdæmið. Þessi mynd er falleg, en ekki beinlínis dæmigert val á kápu á gamansögu.
Helgi hefur skrifað nokkrar bækur. Andsælis á auðnuhjólinu og Þegar kóngur kom standa upp úr að mínu mati, þó ólíkar séu. Frjálsar hendur sver sig í ætt við hina fyrrnefndu. Hér er sem sagt um að ræða gamansögu.Við kynnumst meðal annars starfsfólki Fjölbrautaskólans við Kringlumýri og heimskupörum nemenda þar.
Höfundur er þannig að skrifa út frá eigin reynsluheimi sem kennari og setur ýmsar uppákomur í kennslu í spaugilegt ljós. Nemendur skilja ekki einföldustu hugtök og eru dónalegir við kennarann og aðra nemendur. Kennarar eru líka hinir mestu gallagripir.
Hér komum við þó að einum helsta galla sögunnar. Hún er sögð út frá sjónarhóli ýmissa persóna. Ég átti mjög erfitt með að halda utan um persónusafnið og ruglaði Eiríki rauða saman við Randver og Gissur alveg fram í lok bókarinnar. Þannig er líka erfitt að tala um að eitthvað ákveðið plott sé í bókinni. Nálægt endanum skýrist þó að Randver er í rauninni aðalpersónan og glíma hans við skólayfirvöld og lögregluna er eins konar klímax sögunnar.
Aðrar persónur koma líka við sögu. Til dæmis stjórnmálamaðurinn og framapotarinn Hafsteinn Hafberg. Að ógleymdum Jónasi Geir sem ég botnaði alls ekkert í og taldi vera sömu persónunina og Hafstein Hafberg fram á síðustu metrana.
Það er óhjákvæmilegt að máta persónur bókarinnar við þær sem þekktar eru af kennarastofunni. Í rauninni er samt ljóst að allar persónurnar byggjast á höfundi frekar en nokkrum öðrum. Höfundur skrifar sig frá ýmsum hugmyndum og í miðri bók ætlar ein persónan, sem hefur skrifað bókina Þægar stelpur, (ólíkt Helga Ingólfssyni sem skrifaði Þægir strákar) að byrja á bók sem nefnist Frjálsar hendur. Þannig er bókin orðin meta-bók og höfundur er kominn á kaf í sjálfs-satýru. Persónan grínast t.d. með að nauðsynlegt sé að breyta kyninu á skólameistaranum frá raunveruleikanum til að ekki sé of augljóst um hvern verið er að skrifa. Nefna má að í bókinni er kyn skólameistara Fjölbrautaskólans við Kringlumýri er öfugt við kyn skólameistara MR.
Ómögulegt að gera bókinni skil án þess að nefna skemmtilegasta hlutann sem er rammasagan Hrímlendinga saga eftir Randver. Sú saga fjallar meðal annars um Dávíðan konung og Hörða-Geir. Skessuna Krísu og Ísbjörgu. Óleifur sýr kemur líka við sögu:
Óleifur hét höfðingi, kallaður spaki, vestfirskur að öðli. [...] Þennan mann kjöri landslýður til allsherjargoða, en eigi voru sumir um það sáttir. Átti hann margt óvildarmanna er nefndu hann sýr. Konu hafði Óleifur rænt, er hann var í austurvíking, og hét það man Þórríður. Var hún kvenna þokkasælust og dóttir keisarans af Jórsölum.
Niðurstaða: Það er margt fyndið í bókinni Frjálsar hendur - kennarahandbók. Hún er þó ekki nógu markviss til að komast á stall með betri bókum Helga Ingólfssonar. Ég gef henni 3 stjörnur af 5 mögulegum.
Hvað heitir þessi reisulegi flamingó?
ReplyDeleteDóttirin segir aðspurð að hann heiti "Flamiggóinn". Það er ekki verið að flækja hlutina á þessu heimili.. Aldrei að vita nema að dúkkan, "Dúkkan" verði með innkomu bráðum á blogginu.
ReplyDeleteEf þú hefðir nú lesið bókina með kveikt á öllum skilningarvitunum hefðirðu líklegast tekið eftir því að stjórnmálamaðurinn heitir Hreggviður Hafberg, ekki Hafsteinn. Skólameistarinn er einnig kona - en eftir því sem ég best veit er Linda Rós Michaelsdóttir það einnig.
ReplyDeleteÞú þarft að vanda þig betur og skrifa aðeins bitastæðari greinar. Hingað til hefur þetta verið afar rýrt.