Wednesday, January 23, 2013

Bók #6: MONSJÖR KÍKÓTI

Sjötta bók ársins heitir MONSJÖR KÍKÓTI og er eftir Graham Greene. Þetta er fyrsta skáldsagan sem ég les eftir Greene. Bókin kom út á frummálinu 1982 og kom í íslenskri þýðingu Áslaugar Ragnars 1983. Um er að ræða 235 síður. Þetta er ein af þeim bókum sem komu í stafla frá nágrannanum á dögunum.



Sem sjá á myndunum höfum við dæmigerða íslenska harðspjaldabók. Dóttir mín tók að sér að rífa titilinn af lausu kápunni. Bækur fá sjálfkrafa nokkur mínusstig hjá mér fyrir að vera á þessu formi. Það er best fyrir alla þegar bók er í kilju. Myndin á kápunni er skemmtileg og sýnir fyndið atriði úr sögunni. Að því sögðu þá finnst mér bókin ekki girnileg. Ég hefði ekki laðast að þessari bók úr fjarska. Ég sé fyrir mér að hún sé til í stöflum í Kolaportinu. Monsjör Kíkóti, tilvalin í jólagjöf árið 1983.



Í grunninn er söguþráðurinn þessi: Tveir vinir, prestur (Monsjör Kíkóti) og fyrrum bæjarstjóri (Sansjó) í þorpi á Spáni fara í stutt ferðalag um Spán. Þeir ferðast um á gömlum SEAT bíl sem heitir Rósínant. Þeir eru vel hlaðnir af víni. Á leiðinni lenda þeir í ýmsum ævintýrum en bókin er þó að verulegu leyti byggð upp á samtölum þeirra tveggja og gæti vel sómt sér sem leikrit.


 Á vissan hátt er þannig verið að færa söguna um Don Kíkóta til nútímans. Ég hef ekki lesið slíka bók og því ekki dómbær á allar vísanir. Greene heldur þó hönd manns og persónur bókarinnar benda lesandanum á í hvert sinn sem þeir feta í fótspor forfeðra sinna. Þannig kljást þeir til dæmis við vindmyllur nútímans í formi spilltu lögreglunnar.



Monsjör Kíkóti er sem sagt kaþólskur prestur og bæjarstjórinn Sansjó er kommúnisti. Á ferðum sínum ræða þeir þessi mál og pota í gallana við kenningar hins. Oftar en einu sinni stoppa þeir bílinn nálægt læk við þjóðveginn, skella nokkrum vínflöskum út í til kælingar og ræða málin vel á fjórðu flösku. Fyndnasta atriði bókarinnar er þegar Kíkóti reynir að útskýra hugmyndina með heilagri þrenningu. Þeir hafa tvær tómar vínflöskur (faðirinn og sonurinn) og eina tóma hálfflösku (heilagur andi). Allt vínið kom samt af sama akrinum og er þannig í eðli sínu "sama vínið". Kíkóti áttar sig síðan strax að hann gerði alvarlega villu þarna með því að láta hálfflöskuna standa fyrir heilagan anda. Það er nefnilega alvarleg synd að gera gys að heilögum anda.



Að mörgu leyti minnir þessi bók mig á kvikmyndina/bókina Sideways. Þar eru líka tveir félagar að ferðast um landið, drekka vín og ræða málin. Í Monsjör Kíkóta er þó farið dýpra í mannlegt eðli. Manni líður vel eftir að hafa lesið þessa bók. Ég gef henni 3,5 stjörnur af 5 mögulegum.

4 comments:

  1. Hvaða bók ætlarðu að lesa næst?

    ReplyDelete
  2. Ég er að spá í að demba mér í ILMINN.

    ReplyDelete
  3. Ég bíð spenntur eftir umsögninni ... Sá myndina, hún var skemmtileg, en held að maður þurfi að lesa söguna til að ná snilldinni.

    ReplyDelete
  4. Ég þrælaði mér gegnum Ilminn fyrir nokkrum árum, fannst hún frekar langdregin ef ég man rétt en samt eftirminnileg saga. Hlakka til að heyra hvað þér finnst :)

    ReplyDelete