Sunday, January 13, 2013

Bók #3: SKUGGI VINDSINS

Ég byrjaði á bókinni SKUGGI VINDSINS um síðustu helgi og lauk við hana áðan. Lesturinn tók því rúmlega viku. 

Umrædd bók er eftir spænska rithöfundinn Carlos Ruiz Zafón. Tómas R. Einarsson þýddi. Bindið er 550 síður. Á forsíðunni er tilvitnun í fyrrum utanríkisráðherra Þýskalands, Joschka Fischer sem segir: "Leggðu allt annað frá þér og lestu fram á rauðanótt!" Íslenski útgefandinn veit sem er; Íslendingar snobba fyrir þýskum fyrirmennum.



Einnig er skemmtilegt að á forsíðunni sést að Amazon.com hefur gefið bókinni 4,5 stjörnur. Eins og kunnugt er það ekki Amazon sem gefur bókum einkunn, heldur lesendur. Einkunnin er þannig háð tíma og ég myndi ekki mæla með að nota þessa markaðssetningu. Þegar þetta er ritað 6 árum eftir að bókin kom út, heldur bókin þó enn þessum stað í stjörnugjöf á slíkri síðu.

Bókin gerist á Spáni um miðja síðustu öld. Nánar tiltekið Barcelóna. Maður upplifir borgina sjálfa mjög sterkt við lestur bókarinnar og greinilegt er að höfundur er öðrum þræði að skrifa um hana. Ekki ósvipað og New York borg í Woody Allen mynd. Annað stórt atriði er spænska borgarastyrjöldin sem mikið er vísað í og hefur haft mikil áhrif á persónur bókarinnar.



Aðalpersóna bókarinnar er Daníel. Hann er ungur maður. Í upphafi bókarinnar fer hann með föður sínum í Kirkjugarð gleymdu bókanna. Á slíkum stað eru bækur varðveittar og þeim forðað frá gleymsku og eyðileggingu. Daníel má velja sér eina bók til að taka með sér heim en hann verður að varðveita þá bók að eilífu. Hann velur sér bókina "Skuggi vindsins". 

Hér koma tvö mikilvæg atriði fram. Í fyrsta lagi fær bókin strax ákveðinn ævintýrablæ og lesandinn er ekki viss um að venjuleg náttúrulögmál gildi í sögunni. Sú tilfinning magnast seinna meir þegar sjálfur djöfullinn verður að persónu.
Í annan stað eru bækur yfir höfuð mikilvægt umfjöllunarefni bókarinnar. Daníel og faðir hans reka bókabúð og bækur koma mikið við sögu. Höfundur notar ýmis tækifæri til að sýna bókalestur í rómantísku ljósi:
Bea segir að listin að lesa sé smám saman að deyja út, að hún sé afar persónuleg athöfn, að bók sé spegill og að við getum aðeins fundið í henni það sem við berum innra með okkur áður en að lestri kemur, að þegar við lesum leggjum við í það hugann og sálina og að þær eigindir verði æ fátíðari.

Á næstu 500 síðum fylgjumst við með leit Daníels að höfundi Skugga Vindsins, Julian Carax. Hann virðist vera gufaður upp og jafnvel dáinn. Eða hvað? Bókin er þannig spennusaga, drama, glæpasaga og umfram allt þroskasaga. 


Niðurstaða
Skuggi vindsins er mjög góð bók. Ég gef henni fjórar stjörnur af fimm mögulegum. Ég myndi mæla með henni við alla.

7 comments:

  1. Verda allar bækurnar skáldsögur?

    ReplyDelete
  2. Það virðist stefna í það Önundur. Ég útiloka þó ekki að lesa einhverjar fræðibækur ef eitthvað gott kemur upp í hendurnar.

    ReplyDelete
  3. Það hefur reyndar verið skorað á mig að lesa ævisögu Karls Roves
    http://www.amazon.com/Courage-Consequence-Life-Conservative-Fight/dp/B005OHSIO4/ref=la_B0033Z4DPW_1_1?ie=UTF8&qid=1358171419&sr=1-1

    ReplyDelete
  4. Ljómandi góð umfjöllun um annars fína bók. Hefði haft gaman af því að sjá eina málsgrein eða svo um hlut Fermíns í sögunni. Áttaði mig aldrei fyllilega á þeim karakter.

    Má annars gera ráð fyrir bloggi um allan "þríleikinn"?

    ReplyDelete
  5. Já góð spurning. Það er mjög freistandi að halda áfram að lesa og kynnast þessum persónum betur. Internetið virðist þó vera á einum rómi um það að þessi framhöld séu mun síðri en fyrsta bókin.

    Femín var mjög áhugaverður karakter og margt af því fyndnasta sem er í bókinni fer í gegnum hann.
    Femín verður eins og annar faðir fyrir Daníel en er samt meira eins og besti vinur. Það er hann sem er hreyfiaflið í sögunni og leiðir Daníel að miklu leyti áfram í leitinni.
    Við verðum að líta til þess að Daníel er móðurlaus og því er Femín líka eins konar móðurímynd hans. Hann er sá maður sem faðirinn getur ekki orðið.

    ReplyDelete
  6. Áhugaverðar hugleiðingar, ég hafði reyndar ímyndað mér hann sem eins konar týndan bróður.

    Annars truflaði hlutverk blindu stúlkunnar mig mjög mikið, átta mig ekki á því hvort hún hafði eitthvað meira og stærra hlutverk en bara að sýna hvað Daníel var hrifnæmur ungur maður.

    Nóg um það, hlakka mjög til að geta komið með annað innslag.

    ReplyDelete
  7. Ég er sammála. Maður beið eftir því að Clöru-karakterinn kæmi aftur inn á sviðið seinna í bókinni. En ég held líka að ályktun þín sé rétt. Það líða nokkur ár þarna á milli og við eigum að fylgjast með Daníeli þroskast.

    ReplyDelete