Tuesday, December 31, 2013

Bók #52: ÞORSTI

Ég fékk bókina ÞORSTI á Íþöku. Höfundur er Esther Gerritsen. Þessi bók telst því með í hollensku nýbylgjunni hér á landi. Við Íslendingar elskum hollenskar bókmenntir. Sporgöngumaður hollenska landnámsins er auðvitað Herman Koch. 


Höfundur hefur skrifað nokkrar bækur en aðrar virðast ekki hafa komið út á íslensku. Reyndar finnst ekkert yfirhöfuð um bókina eða höfundinn á íslenskum síðum. Kápan vísar á forlagid.is sem afneitar tilvist þessarar bókar. Furðulegt. ÞORSTI telur 206 síður.

Söguhetjan er ung stúlka, hún Coco. Sú er frekar stefnulaus í lífinu. Lærir rússnesku í háskóla með hangandi hendi. Hún á í ástarsambandi við eldri mann. 

Coco er að mestu leyti alin upp af föður sínum og stjúpmóður. Móðir hennar, Elizabeth, er óvenjuleg og þjáist líklega af asperger-heilkenni. Þannig hittast þær fyrir tilviljun á förnum vegi og Elizabeth tilkynnir dóttur sinni að hún sé dauðvona með krabbamein. 

Coco veit ekki hvernig hún á að bregðast við þessu en tekur þá ákvörðun að flytja inn til móður sinnar og hjúkra henni. 


Það er reyndar ekki sérlega líklegt að móðirin vilji þennan greiða yfir höfuð. Samband þeirra er ekki mikið og þær kunna ekki að umgangast hvor aðra. Frá sjónarhóli Cocoar er þetta móðurinni að kenna, enda afleit í mannlegum samskiptum. Lesandanum er það þó vel ljóst að Coco sjálf er ekki barnanna best. Hún er feimin við móður sína og á erfitt með að sinna henni af einlægni og líta fram hjá göllum hennar.

Coco á greinilega líka óuppgerðar tilfinningar í garð móður sinnar vegna hugsanlegrar vanrækslu í æsku. Inn í þetta fléttast skrítnar senur þar sem Coco fer á bari og býðst til að sofa hjá karlmönnum. Eitthvað sem veldur hennar reyndar sársauka. Þetta er ekki sérlega vel útskýrt í bókinni og ég átti persónulega erfitt með að botna vel í þessu.


Mér fannst ÞORSTI lýsa ákveðinni stemningu mjög vel. Coco er leitandi persóna sem hefur ekki mikla lífsfyllingu og tekur erfiða (örvæntingarfulla?) ákvörðun um að hjálpa móður sinni. Hið stirða samband þeirra er kómískt en jafnframt sársaukafullt að lesa um.

Niðurstaða. ÞORSTI er bók um lífið. Mér fannst þó vanta aðeins stærri punkt í söguna eða aðeins óvæntari fléttu inn í þetta. Ég gef henni þrjár stjörnur.

Sunday, December 29, 2013

Bók #51: SIGRÚN OG FRIÐGEIR

Jólasveinnin kom með bókina SIGRÚN OG FRIÐGEIR. Hún er eftir Sigrúnu Pálsdóttur og sagan sjálf þekur 183 síður en 228 síður með tilvísunum, skrám og heimildum.

Kápan sjálf er mjög flott og tilgerðarlaus. Myndin sýnir hjónin á siglingu og passar mjög vel við efni bókarinnar. Eini gallinn er að gyllti titillinn passar illa við hvítan bakgrunninn og er ekki sérlega læsilegur.


Bókin segir sögu hjónanna Sigrúnar og Friðgeirs. Þau eru fædd á öðrum áratug síðustu aldar. Bókin hefur undirtitilinn FERÐASAGA og fókusinn er á dvöl þeirra á Bandaríkjunum á stríðsárunum. Þar stunda þau bæði læknanám.

Í byrjun fáum við smá innsýn í bernsku þeirra beggja. Þó fáum við að vita meira um Sigrúnu, væntanlega vegna ítarlegra safns heimilda um hana. Alls staðar eru tilvísanir og höfundur nálgast söguna með nákvæmum vinnubrögðum fræðimannsins. Þetta verður bæði styrkleiki og veikleiki bókarinnar. 

Það er að mörgu leyti mjög jákvætt að textinn sé knappur og skýr. Oft langar lesandann þó að vita meira. Maður hefur afskaplega litla tilfinningu fyrir Friðgeiri sem persónu. Saga hans frá fæðingu til hjónabands nær frá bls. 26 til 33 og þar á milli eru líka sjö stórar ljósmyndir.

Sums staðar er manni þó drekkt í staðreyndum:
Í barnæsku Sigrúnar Briem leit samfélagið við Tjarnargötuna svo út: nyrst í númer 18 bjó Sigrún Bjarnason, móðursystir Sigrúnar og ekkja eftir Björn augnlækni, ásamt síðari manni sínum, Þorleifi H. Bjarnasyni, málfræðingi og kennara við Menntaskólann. Sigrún og Þorleifur áttu tvo syni en dóttirin Karítas var Björns augnlæknis. Í húsinu bjó líka móðuramman Karítas Markúsdóttir, ekkja séra Ísleifs Gíslasonar í Arnarbæli. Sigrún Bjarnason var stórbrotinn persónuleiki og glæsileg kona, vægast sagt, sem gerði við regnhlífar og bjó til konfekt sem var ólíkt öðrum sætindum sem Reykvíkingar höfðu þá smakkað. Í númer 22 voru svo Klemens Jónsson og seinni kona hans, Anna Schiöth, ásamt syninum Agnari Klemens. 
..og svo framvegis í hálfa blaðsíðu enn. Maður fær aðeins á tilfinninguna við lesturinn að þessu efni væru gerð betri skil í sögulegri skáldsögu.

 

Við fylgjumst með þeim hjónum ferðast til Bandaríkjanna og takast á við lífið þar. Ekkert er fast í hendi en þau leita víða og fá loksins stöðu við sjúkrahús í New York, síðar í Winnipeg, aftur New York, Nashville og loks Boston þar sem Friðgeir lýkur doktorsprófi. Þau eignast tvö börn úti en ekkert annað kemur til greina en að halda heim til Íslands þegar náminu er lokið. Það má skilja það sem svo að Sigrúnu líði ekki sem best í Bandaríkjunum og vilji gjarnan skipta um umhverfi.

Þau fara þannig heim með alla fjölskylduna haustið 1944. Þetta er erfið ákvörðun þar sem siglingar yfir Atlantshafið eru varasamar í miðju stríðinu. Besti kafli bókarinnar er án vafa sá síðasti með ísköldum og nákvæmum lýsingum á þessu ferðalagi. Höfundur setur aðstæður í samhengi fyrir lesandann á þægilegan hátt með því að lýsa gangi stríðsins og aðstæðum kafbátahermanna.


Niðurstaða: SIGRÚN OG FRIÐGEIR segir mjög áhugaverða sögu á mjög læsilegan og aðgengilegan hátt. Sagan er stutt. Þetta er bæði kostur og galli. Eftir stendur sú tilfinning að maður þekki persónurnar ekki sérlega vel. Hins vegar hefði hin hefðbundna þriggja binda íslenska æfisaga ekki heldur verið góður kostur. Ég gef bókinni 3,5 stjörnur.

Thursday, December 26, 2013

Bók #50: má ekki elska þig

Ég fékk bókina "má ekki elska þig" á Íþöku. Slík bök er eftir Jenny Downham, sem hefur áður skrifað metsölubókina "áður en ég dey" eins og bókarkápan minnir okkur á, en ég hef reyndar aldrei heyrt talað um. Kápan sjálf er nokkuð góð. Falleg mynd af ungu fólki í faðmlögum. Tilvísunin í fyrri bók höfundar dregur þó úr vægi kápunnar. Sagan þekur 384 síður.


Sagan gerist í litlum bæ í Englandi. Söguhetjan er Mikey. Hann er 18 ára, virðist vera frekar street-smart náungi. Hefur flosnað upp úr námi en hefur atvinnu sem aðstoðarmaður í eldhúsi og vill gjarnan verða kokkur. Hann á tvær systur og móður sem er atvinnulaus áfengissjúklingur. Mikey gerir sitt besta til að sinna fjölskyldunni.

Í upphafi bókar er fjölskyldan að byrja að vinna sig í gegnum það áfall að annarri systurinni er nauðgað. Eða svo segir hún. Mikey og vinir hans hafa ekki mikla trú á því að réttvísin muni standa sig í stykkinu í þessu máli og ákveða að taka málin í eigin hendur. Þeir mæta því í samkvæmi að heimili hins meinta nauðgara og ætla sér að lemja hann með skiptilykli. Ekki gengur það eftir, enda Mikey kannski ekki alveg eins harður og hann heldur. Hins vegar kynnist hann þar henni Ellí, 16 ára systur nauðgarans.


Eins og gefur að skilja verða þau ástfanginn. Mikey telur sér að vísu trú um að hans markmið sé að ná upp úr henni upplýsingum. Ellí hefur verið góða stelpan allt sitt líf og á því í mestu vandræðum með að vinna úr tilfinningum sínum.

Stéttaskiptingin spilar hérna sterkt inn í eins og í öllum enskum bókmenntum virðist vera. Mikey býr í bæjarblokk en Ellí er af stofni aristókrata. Í bókinni fylgjumst við með þessu ástarsambandi og erfiðleikunum sem þau glíma við. Mikey vill hjálpa systur sinni og fjölskyldu, eiga vini og halda vinnunni en líka elska Ellí. Ellí vill hjálpa bróður sínum, ganga vel í skólanum en líka elska Mikey. 

Þetta reynist ekki hið einfaldasta mál.

Þessi bók verður að flokkast sem unglingabók. Sumt virkar barnalega og kjánalega á mann. Mikey virðist mun reyndari og vitrari en aldur hans segir til um. Ellí er að þessu leyti trúverðugari persóna. 16 ára skólastelpa sem þarf að þroskast hratt við erfiðar aðstæður. 


Þarna liggur líka styrkleiki bókarinnar. Þemað kynferðisglæpur sem rammi utan um ástarsögu er auðvitað frekar þungt. En það er vel skrifað utan um þetta. Hinn meinti nauðgari er nokkuð sannfærandi og atburðarásin trúverðug. Faðir nauðgarans er hins vegar óþarflega mikil erkitýpa. Ríki kallinn sem trúir engu upp á einkason sinn og hefur takmarkaðan tíma fyrir dóttur sína.

Niðurstaða: "má ekki elska þig"  er fín bók fyrir það sem hún er. Ég myndi segja að markhópurinn sé 13 - 30 ára áhugamenn um ástarsögur. 3 stjörnur.

Friday, December 13, 2013

Bók #49: VINCE VAUGHN Í SKÝJUNUM

Ég fékk VINCE VAUGHN Í SKÝJUNUM á Íþöku. Bókin er erftir Halldór Armand Ásgeirsson. Þetta er hans fyrsta bók eftir því sem ég kemst næst. Ég segi bók, því þetta er ekki eiginleg skáldsaga heldur tvær smásögur. Þetta er þó ekki vel ljóst fyrir grunlausum bókaunnendum.


Á kápunni stendur VINCE VAUGHN Í SKÝJUNUM en á titilsíðunni VINCE VAUGHN Í SKÝJUNUM OG HJARTAÐ ER JÓJÓ. Þar kemst upp um glæp útgefandans. Fyrri sagan fjallar sem sagt um Vince Vaughn og nær frá síðu 7 til 78. Síðari sagan, HJARTAÐ ER JÓJÓ spannar síður 81 til 149.

Nú er það mögulega svo að smásögur seljast ekki jafnvel og skáldsögur. Engu að síður er það mjög skrítin ákvörðun að spyrða þessum tveimur sögum saman og selja undir merkjum annarar. Lesandinn er blekktur. Á bakhliðinni er gerð tilraun til að samþætta sögurnar og láta eins og bókin hafi eitt þema sem er líka frekar langsótt og nokkuð augljóst að höfundur hefur ekki hugsað það þannig.

Kápan sjálf er mjög fín. Notalegur þrívíddar-effekt á forsíðunni og frábær ljósmynd af höfundi á bakhlið.

Saga 1: Ég giskaði á að titillinn "Vince Vaughn í skýjunum" benti til dæmigerðrar fyrirsagnar af slúðurmiðli á vefnum. Sagan fjallar þó bókstaflega um þetta. Sara er stelpa sem vinnur í Laugardalslauginni um sumar. Dag einn sér hún magnaða skýjamyndun sem hún tekur upp á símann sinn. Þar virðist sjálft mini-selebbið Vince Vaughn gægjast í gegnum skýin. 

Sara setur myndbandið á vefinn og upptakan slær í gegn. Hún birtist í íslenskum og erlendum fjölmiðlum og Sara verður "fræg".

Þessi saga er nokkuð lengi í gang. Nokkru púðri er eytt í myndrænar lýsingar af sundlauginni og andrúmsloftinu þar. Lesandinn dettur þannig ekki beint inn í söguna. Fléttan sjálf er hins vegar mjög vel unnin og frásögnin afar góð og kímin. 


Mér finnst höfundur ná að vinna mjög vel með þetta fyrirbæri sem stundarfrægð er. Fjölmiðlasirkúsinn í kringum mjög ómerkilega hluti. Jafnvel þegar hinn frægi einstaklingur er kannski ekki mjög frægur. Vince Vaughn hlýtur allavega að hafa verið í skýjunum með þetta. 

Endir þessa þáttar er líka flottur. Sagan fjarar bara út og lífið heldur áfram, rétt eins og stundarfrægðin.

Niðurstaða 1: Smásagan VINCE VAUGHN Í SKÝJUNUM er mjög vel unnin. Ég gef henni fjórar stjörnur.

Saga 2: "Hjartað er jójó" fjallar um lottókynninn Þóri. Hann er ekkert sérstaklega ánægður með sinn stað í lífinu. Nótt eina dreymir hann kvæði. Hann skrifar það niður strax þegar hann vaknar. Þórir fær þá flugu í höfuðið að kvæðið hljóti að vera eftir eitt af þjóðskáldum Íslendinga sem hafi vitjað hans í draumi.

Þórir sendir fjölmiðlum upplýsingar um þessi merkilegu tíðindi. Furðulegt nokk sýna þeir því þó engan áhuga. Næsti leikur Þóris er þá að flytja kvæðið í heild sinni í Lottóinu. Þar vekur hann auðvitað athygli en honum finnst þó aðalatriðið, kvæðið sjálft, ekki fá næga virðingu.

Þema þessarar sögu er nokkuð gott. Aðalpersónan virðist búa í sínum lokaða heimi og fókuserar eingöngu á þetta eina atriði. Sagan minnir að því leyti nokkuð á leikrit. 

Sagan endar á mjög óvæntan og gróteskan hátt sem er frekar erfitt að botna í. Höfundi tekst ekki að binda slaufu á söguna og klára hana á sannfærandi hátt.


Þó er margt mjög fyndið í henni. Hinn hrifnæmi Þórir eldri með sitt klósett í stofunni á mjög góða innkomu. 

Niðurstaða 2: Smásagan HJARTAÐ ER JÓJÓ er ekki eins vel unnin og fyrri sagan þó hugmyndin sé fín. Ég gef henni 2,5 stjörnur.

Tuesday, December 3, 2013

Bók #48: THE RACKETEER

Mér áskotnaðist bókin THE RACKETEER eftir John Grisham og las hana á nokkrum kvöldum. Sagan er 386 síður og kom út árið 2012. Grisham hefur skrifað fjölmargar bækur. Kvikmyndir hafa verið gerðar eftir mörgum þeirra. Pelican Brief, The Firm, A Time to Kill og fleiri. Þetta efni er frá tíunda áratugnum. Bækur Grishams á 21.öldinni eru ekki eins kunnuglegar. 


THE RACKETEER segir sögu lögmannsins Malcolm Bannister. Sá situr í fangelsi og hefur afplánað fimm ár af tíu. Hann var dæmdur sekur fyrir peningaþvætti en er að sjálfsögðu saklaus. Malcolm starfaði á lítilli stofu í smábæ. Það fór lítið fyrir honum og hann hefði seint orðið ríkur á störfum sínum. Hann var giftur konu og á 6 ára strák. Hún skilur þó við hann fljótlega eftir að refsivistin hefst.

Malcolmi er farið að leiðast þófið í fangelsinu og er kominn með plan um hvernig sleppa skal út. FBI er nefnilega að leita að manni sem myrti dómara. Malcolm einn veit hver það er og hvar hann er að finna. Honum tekst að semja um sakaruppgjöf fyrir þessar upplýsingar. Planið gengur eftir og Malcolm sleppur út. Fær meira að segja að fara í vitnavernd.

Á þessum tímapunkti er svona þriðjungur af bókinni búinn og hún skiptir þá algjörlega um gír. Malcolm fer að búa til heimildarmynd um náunga sem lesandinn botnar lítið í hver er eða hvað er í gangi. Ekkert er útskýrt varðandi plott Malcolms. Maður flettir til baka og reynir að rifja upp en nei, þessi persóna var aldrei kynnt til leiks.



Þessi flétta dregst mjög á langinn og ég var alvarlega að íhuga að gefast upp. Það kemur þó fljótlega í ljós að það er miklu dýpra á plotti Malcolms en virðist í fyrstu. Malcolm er ekki allur þar sem hann er séður og er greinilega óáreiðanlegur sögumaður. Þetta er vissulega mjög áhugavert. Enda stendur á kápunni: HE WAS BETRAYED BY THE FBI. NOW HE WANTS REVENGE.

Söguhetjan er sem sagt að hefna sín grimmilega á FBI. Malcolm dregur hverja kanínuna á fætur annarri upp úr hattinum og bókin endar næstum bókstaflega á því að hann ríður syngjandi inn í sólsetrið vellauðugur með gullfallega konu upp á arminn.

Fyrir utan erfiða miðju leiðist manni ekki við lestur bókarinnar. Margt virkar þó afskaplega ótrúlega. Malcolm er þvílíkur sigurvegari og leikur á alla sem á vegi hans verða. Þetta er sérstaklega ótrúverðugt í ljósi þess hvað hann á að hafa verið "venjulegur" fyrir fangelsisvist sína. 

Tengsl hans við fjölskyldu sína eru líka skrítin. Hann á að hafa verið góður faðir. Hins vegar er varla minnst á þennan 6 ára son hans eftir sakaruppgjöfina.



Niðurstaða: THE RACKETEER er ágætis spennusaga. Höfundur heldur þó ekki nógu vel á spöðunum. Það á víst að gera kvikmynd eftir bókinni. Það gæti alveg orðið vel heppnað með réttum breytingum á handritinu. Ég gef bókinni 2 stjörnur.

Friday, November 22, 2013

Bók #47: PARÍSARKONAN

Ég fékk Parísarkonuna á Íþöku. Þetta er eins konar söguleg skáldsaga. Bókin segir sögu Hadley Richardson. Sú var fyrsta eiginkona Ernests Hemingways. Höfundur er Paula McLain. Bókin kom út á frummálinu 2011 en árið 2012 á íslensku. Sagan er 392 síður. 

Hadley og Ernest kynnast í gegnum sameiginlega vini í Bandaríkjunum í byrjun þriðja áratugarins. Þau virðast frekar ólík. Hemingway er ungur ævintýramaður sem hafði barist í fyrri heimsstyrjöld. Hadley er 8 árum eldri og hefur eytt mörgum árum í að hjúkra veikri móður sinni. 



Þau taka upp samband, en Ernest er ævintýramaður og vill flytja til Rómar og reyna fyrir sér við skriftir. Ekki er ljóst hverning Hadley á að passa inn í þessi áform. Frekar óvænt biður Hemingway hennar, þau giftast og ákveða að flytja til Parísar. 

Sagan gerist mestöll í þeirri borg næstu árin. Við fylgjumst með lífi þeirra hjóna þar sem þau feta sig áfram. Hemingway starfar fyrst að hluta sem blaðamaður en einbeitir sér síðar að eigin skrifum. Hann verður smám saman meiri sigurvegari. Hadley er húsmóðir og hefur lítið fyrir stafni. Henni virðist leiðast og hún er mjög háð eiginmanni sínum.

Það er ómögulegt annað en að setja bókina í samhengi við bók Hemingways frá sama tíma, Kvika veislu. Margt er líkt með þessum tveimur bókum. Við kynnumst sömu aðstæðum og sömu persónum. Kosturinn við Parísarkonuna er að hlutir eru kynntir fyrir lesandanum á hefðbundinn hátt. Þegar Ezra Pound kemur til sögunnar útskýrir sögumaður fyrir manni hvern um ræðir og setur í samhengi. Í bók Hemingways eru engar slíkar hækjur.


Parísarkonan er ástarsaga. Margt er mjög vel gert. Maður heldur áfram að fletta og fylgjast með hæðum og lægðum í sambandinu. Hvernig þau fjarlægjast smám saman. Endalokin eru líka nokkuð mögnuð og undarlegur ástarþríhyrningur myndast.

Niðurstaða: Ég hafði mjög gaman að þessari bók. Ég gef henni 3,5 stjörnur, og er meðvitaður um að bók Hemingways fékk minna. Ég myndi segja að eðlilegt væri að lesa þessar bækur saman. Þá væri betra að byrja á Parísarkonunni, enda langar mig núna að prófa Movable Feast aftur.

Friday, November 15, 2013

Bók #46: ÁRIÐ SEM TVÆR SEKÚNDUR BÆTTUST VIÐ TÍMANN

Bókin ÁRIÐ SEM TVÆR SEKÚNDUR BÆTTUST VIÐ TÍMANN er eftir rithöfundinn Rachel Joyce, sem skaust upp á stjörnuhimininn með sumarsmellinum 2012 HIN ÓTRÚLEGA PÍLAGRÍMSGANGA HAROLDS FRY. Bókin heitir á frummálinu PERFECT sem er útskýrt í sögunni. Sekúndurnar tvær eru líka mikilvægt þema bókarinnar. Samt skrítið að skipta svona um titil.


Sagan greinist í tvennt. Öðrum megin er sagt frá uppvexti Byrons og James árið 1972. Hinum megin er saga geðsjúklingsins Jim í nútímanum. Það tekur smá stund að botna í því hvernig þessar sögur tengjast, þó lesandann gruni að gælunafnið Jim eigi við þennan James úr hinni sögunni.

ÓVÆNT, ÞAÐ VAR EKKI HANN HELDUR BYRON!!! Þessi ótrúlega ómerkilega staðreynd er afhjúpuð við lok bókarinnar og lesandanum gæti ekki verið meira sama.

Byron er á barnsaldri. Hann býr með móður sinni, Díönu, og systur á eins konar sveitasetri. Þau tilheyra efri stéttinni. Móðir hans er ekki sérlega hamingjusöm. Faðirinn vinnur í borginni og kemur heim um helgar. 

James hefur sagt Byron frá því að þetta ár verði tveimur sekúndum bætt við tímann til að leiðrétta fyrir skekkju á snúningi jarðar. Sem ungum hugsandi mönnum veldur þetta þeim hugarangri. Hvernig er hægt að framlengja bara tímann?

Dag einn á leiðinni í skólann ákveður móðir Byrons að stytta sér leið í gegnum hverfi fátækra. Einmitt þar telur Byron sig sjá úrið sitt ganga aftur á bak. Hann telur að verið sé að bæta aukasekúndunum við tímann og vekur athygli móður sinnar á þessu. Hún fipast og keyrir á stúlku á reiðhjóli. Díana virðist ekki taka eftir því sem gerist og keyrir í burtu. Þetta hvílir þungt á Byroni. 

Afgangurinn af þessari sögu gengur út á samband Díönu við móður reihjólastúlkunnar. Þar spilar stéttarskiptingin inn í.

Hinum megin fylgjumst við með baráttu Jims þar sem hann reynir að fóta sig í lífinu. Hann hefur legið inni á geðdeild en hefur vinnur núna á kaffihúsi. Í þessari sögu gerist nákvæmlega ekkert. Jú, Jim reynir að taka upp samband við hana Eileen, annan starfsmann kaffihússins. Það gengur illa. 

Í lok bókarinnar fléttast þessar tvær sögur saman á mjög óáhugverðan hátt.


Ég var mjög lengi að lesa þessa bók, eins og allar leiðinlegar bækur. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Lýsingaru er flottar og andrúmsloftið ágætt. Maður finnur til með hinni einmanna húsmóður sem er á stað í lífinu sem hún kann ekkert á. Það er átakanlegt að fylgjast með henni sturta gjöfum yfir fátæka fólkið rétt eins og unglingur sem reynir að kaupa sér vini með nammi.

Fyrir utan þetta er voðalega lítið innihald í bókinni. Rassvasaheimspekin ristir ekki mjög djúpt. Maður finnur voðalega lítið til með þessum Jim karakter. Höfund skortir alveg áhugaverða fléttu í þeirri vídd.

Niðurstaða: ÁRIÐ SEM TVÆR SEKÚNDUR BÆTTUST VIÐ TÍMANN er bara mjög langdregin og leiðinleg bók. Ég gef henni 1,5 stjörnur.

Monday, October 28, 2013

Bók #45: LET THE GREAT WORLD SPIN

Ég fékk bókina Let The Great World spin á bókasafninu. Ég mundi eftir nafninu vegna þess að bókin hafði verið nokkuð í umræðunni. Hún fékk meðal annars National Book Award 2009.


Bókin er eftir írska rithöfundinn Colum McCann, hann hefur skrifað nokkrar bækur og sú nýjasta kom út á þessu ári. Let The Great World Spin er 349 síður, sem sagt ekkert voðalega löng, en samt var ég afskaplega lengi að lesa hana. Ástæðan er sú að það er mjög erfitt að detta inn í söguna. Reyndar gerðist það aldrei almennilega hjá mér.

Grunnur sögunnar, það sem kápan sýnir, og nefnt er aftan á bókinni, er atburður sem átti sér stað í ágúst 1974. Þá gekk náungi á línu milli tvíburaturnanna í New York. Það er þó ekki þannig að bókin fjalli um þennan atburð. Þetta afrek er hins vegar notað sem eins konar band sem fléttar saman ólíka þræði í bókinni. 

Fyrstu 70 síðurnar segja frá lífi írsku bræðranna Corrigan og Cieran. Maður kynnist erfiðri æsku þeirra, áfengisvanda, trúarvakningu Corrigans og seinna lífinu í New York. Corrigan lifir meinsemdarlífi og leyfir vændiskonunum í hverfinu að nota klósettið sitt og hjálpar þeim almennt. Hann deyr svo á blaðsíðu 70 þegar hann keyrir vændiskonu heim úr réttarsal.. 


Þetta er frekar frústrerandi fyrir lesandann sem hefur byggt tengingu við þennan karakter sem maður hafði ímyndað sér að væri söguhetja bókarinnar. Í staðinn færist fókusinn á miðaldra húsmóður sem er að vinna sig í gegnum sorgina eftir dauða sonarins í Víetnam-stríðinu. Hún er líka eiginkona dómarans sem kemur að máli vændiskonunnar og línudansarans.

Svona heldur bókin áfram. Það eru 11 "aðalpersónur" sem allar allar tengjast einhvern veginn vændiskonunni og línudasaranum. Sögurnar eru náttúrulega misáhugaverðar og snjallar.

Almennt myndi ég segja að þetta sé nokkuð vel gert hjá höfundi. Manni finnast persónurnar trúverðugar og venslin á milli þeirra ekkert mjög langsótt. Ég náði hins vegar aldrei alvöru tengingu við þessa sögu. Það var ekkert sem snart mig eða hvatti mig til að halda áfram að lesa. 

Maður verður að sætta sig við að bókin er ekki eiginleg skáldsaga heldur meira eins og smásagnasafn. Nálægt endanum er saga línudansarans sögð. Líklega athyglisverðasta sögubrotið í bókinni ásamt tengingunni við dómarann Salómon. Kannski er þetta allt saman yfir höfuð áhugaverðara ef maður er New York-búi. Borgin er vissulega eins konar aðalpersóna í sögunni. 


Niðurstaða: LET THE GREAT WORLD SPIN olli mér vonbrigðum. Ég átti erfitt með frásagnarformið og náði aldrei tengingu við söguna eða aðalpersónurnar. Margt er þó ágætlega gert. Tvær stjörnur.

Tuesday, October 22, 2013

Bók #44: THE MAP AND THE TERRITORY

Í sumar las ég bókina The map and the territory. Nýjasta bókin eftir franska rithöfundinn Michel Houellebecq. Bókin hefur komið út á íslensku og heitir Kortið og landið. Ég sá dálítið eftir því við lesturinn að hafa ekki útvegað mér íslensku þýðinguna. Sagan þekur 291 síðu.


Höfundur hefur sent frá sér nokkrar bækur. Þekktust og best er bókin Öreindirnar. Aðall Houellebecqs eru persónurnar í sögunum og plottið sjálft vill hálfpartinn gleymast. Ég þurfti að minnsta kosti að fletta upp á netinu til að rifja upp söguþráðinn. Bækurnar skilja frekar eftir sig ákveðna tilfinningu, jafnvel ónotatilfinningu. Þetta form er fullkomnað í Öreindunum þar sem við fylgjumst nákvæmlega með lífi tveggja bræðra sem passa illa inn í samfélagið.

Samt er ákveðið þema í hverri sögu. Öreindirnar fjalla um klónun og sagan veltir upp þeirri spurningu hvaða máli það geti skipt fyrir mannkynið að kynlíf sé ekki endilega nauðsynlegt til  að tegundinn "lifi af". 

Þetta existensjalíska þema passar mjög vel fyrir söguna og aðalpersónurnar í Öreindunum.


Kortið og landið fetar svipaða slóð. Aðalpersónan er listamaðurinn Jed sem er í frekar litlu sambandi við umheiminn og virðist hafa takmarkaða þörf fyrir mannleg samskipti. Honum tekst þó að meika það frekar óvænt með því að búa til listaverk með ljósmyndum af landakortum. Þetta skilur eftir sig athyglisverða pælingu hvort kort geti haft meira gildi í sjálfu sér en staðurinn sjálfur. 

Lítið fer fyrir Jed næstu 10 árin. Næsta stóra mál hjá honum verða portrettmyndir af fólki. Honum tekst að sannfæra rithöfundinn Michel Houellebecq til að sitja fyrir á einni þeirra. Höfundur skrifar sjálfan sig sem sagt sem persónu í bókinni. Sú persóna er ekkert sérstaklega.. geðfelld. Hennar bíða líka hræðileg örlög.

Höfundur sjálfur er þekktur fyrir að vera einfari og kynlegur kvistur. Þannig tengir maður óhjákvæmilega aðalpersónurnar í sögum hans við hann sjálfan. Það er þess vegna skemmtileg flétta að skrifa höfundinn sjálfan sem persónu. Hver er hinn raunverulega málpípa höfundar? Persónan sem heitir það sama eða sú sem maður samsvaraði með höfundi í byrjun.

Jed verður enn frægari og ríkari fyrir portrettmyndir sínar og verðmætust af öllum er auðvitað myndin af Houellebecq. 

Þema bókarinnar er greinilega listaheimurinn. Ég er ekki viss um að það sé mjög góður grunnur fyrir þá gerð af sögu sem höfundur er að reyna að skrifa. Vissulega geta listamenn verið einfararar. Jed einangrar sig svo gott sem árum saman. Þetta býður samt ekki upp á nógu áhugaverðar fléttur í frásögn

Niðurstaða: Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með þessa bók. Ég átti einhvern veginn von á meiru og mér fannst söguhetjan bara ekki nógu áhugaverð. Engu að síður alls ekki vond bók. Ég gef henni 2,5 stjörnur. Öreindirnar er áfram langbesta bók höfundar.

Wednesday, October 16, 2013

Bók #43: Rosie verkefnið

Ég tók bókina Rosie verkefnið á bókasafni. Ég hafði engar forhugmyndir um efni bókarinnar. Höfundur er vísindamaðurinn Graeme Simsion. Þetta er hans fyrsta skáldsaga. Sagan er 304 síður og hún kom út á þessu ári bæði á ensku og íslensku.


Bókin fjallar um Don. Hann er prófessor í erfðafræði við háskóla í Ástralíu. Það er aldrei sagt beinum orðum í bókinni en það er augljóst að hann liggur einhvers staðar á einhverfurófinu. Hann er sem sagt afburðasnjall og góður í að læra nýja hluti, hvort sem það er dans, að blanda hanastél eða erfðafræði. Don er mjög skipulagður maður. Eldar mat samkvæmt nákvæmri vikuáætlun og þrífur íbúðina reglulega og nákvæmlega.

Hann skortir hins vegar félagsfærni og hæfileikann til að lesa í aðstæður. Þannig er hann orðinn fertugur, á bara tvo vini og enga kærustu. Hann ákveður að nú sé komið nóg og byrjar Eiginkonuverkefnið. Það felst í því að Don útbýr spurningalista með þeim helstu eiginleikum sem hann telur tilvonandi eiginkonu þurfa að búa yfir. Hún verður að vera greind, stundvís, má alls ekki reykja, helst ekki drekka og svo framvegis.


Ekki reynast margar konur uppfylla hinar ströngu kröfur. Það endar hins vegar þannig að Don hittir hana Rosie í gegnum verkefnið. Hún er algjörlega á skjön við kröfur Dons en samt verður hann nokkuð hrifinn af henni, þó hann afskrifi hana reyndar framan af algjörlega sem eiginkonuefni.

Bókin er því í reynd rómantísk gamansaga. Þetta er eins konar þroskasaga fyrir Don. Hann hjálpar Rosie að leita að uppruna sínum. Hún telur nefnilega að uppeldisfaðir hennar sé ekki blóðfaðirinn. Á þessu ferðalagi lærir Don ýmislegt um sjálfan sig.

Endirinn er því nokkuð fyrirsjáanlegur. Don leggur meira á sig til að verða "eins og hinir" og falla í kramið. Hann hættir að tala í formlegum frösum og afnemur skipulagða máltíðakerfið sitt.

Sagan er þannig nokkuð formúluleg en það er ekkert vandamál fyrir mér. Aðall bókarinnar eru persónurnar og þá sérílagi Don. Höfundur gefur frábæra innsýn í hugarheim hins skipulagða sérvitra manns sem á erfitt með að fóta sig í samfélaginu. Manni líkar sjálfkrafa mjög vel við Don og fær sting í hjartað þegar hann fer út af sporinu með setningu eins og "Ég var að endurmeta tilboðið þitt um kynlíf".


Ég sprakk oft úr hlátri við lestur bókarinnar. Á fyrirlestri um heilkenni Aspergers eru nokkrir gestir sem haldnir eru samnefndu heilkenni. Söguhetjan reynir að sýna fram á að Asperger sé ekki sjúkdómur. Þaðan komi t.d. gagnlegar hugmyndir að lausnum:
"Ímyndaðu þér", sagði ég, "að þú sért í felum í kjallara. Óvinirnir eru að leita að ykkur, þér og vinum þínum. Enginn má gefa frá sér minnsta hljóð, en barnið þitt grætur". Ég lék þetta eftir, eins og Gene hafði gert, til að gera söguna trúverðugri. "Vaaaa." Ég þagnaði smástund til að auka áhrifin. "Þú ert með byssu." [...] "Með hljóðdeyfi. Þeir nálgast. Þeir ætla að drepa ykkur öll. Hvað áttu að gera? Barnið orgar - " Krakkarnir gátu ekki beðið eftir því að svara. Einn hrópaði: "Skjóta barnið, " og fyrr en varði æptu þeir hver upp í annan: "Skjóta barnið, skjóta barnið." 
"Skjóta óvininn" Svo bætti annar við: "Úr launsátri." Uppástungurnar ráku hver aðra. 
"Nota barnið sem tálbeitu. " 
"Hvað erum við með margar byssu?"
"Halda fyrir munninn á því".
"Hvað getur það lifað lengi án þess að fá loft?" 

Niðurstaða: ROSIE VERKEFNIÐ er afar vel skrifuð bók. Drepfyndin og frábær persónusköpun. Ég gef henni 4,5 stjörnur.

Thursday, October 10, 2013

Bók #42: Fólkið frá Öndverðu óttast ekki

Ég fékk bókina Fólkið frá Öndverðu óttast ekki senda heim í gegnum NEON-klúbbinn. Höfundurinn er Shani Boianjiu. Hún kemur frá Ísrael. Þetta er hennar fyrsta skáldsaga. Kápan er ansi áhrifarík og flott. Mjög vel lýsandi fyrir efni bókarinnar



Í grunninn fjallar bókin um þrjár vinkonur sem eru í menntaskóla í þorpi í Ísrael. Þær virðast lifa frekar hversdagslegu lífi, hugsa um stráka og farsíma, en annars fær lesandinn ekki sérlega langan tíma til að kynnast þeim. Það sem allt snýst um er að ganga í herinn. Það er sem sagt herskylda þarna. Ekki virðist vera fyrirsjáanlegt hvenær fólk er kallað í herinn svo stúlkurnar fara á mismunandi tímum.  

Eftir þessa ágætu byrjun fer bókin bara fullkomnlega út af sporinu. Sagan segir okkur eitthvað frá reynslu þeirra í hernum. Hún er sem sagt afar vond, þó stúlkurnar virðist frekar hæfar, hver á sínu sviði. Vandamálið er að sagan er alltof sundurlaus og skortir söguþráð og sannfærandi persónuuppbyggingu. 

Grunnvandamálið er að það er mjög erfitt fyrir lesandann að gera greinamun á söguhetjunum þremur. Jújú, ein á að vera óvenjulega falleg, önnur félagsfælin, en höfundur skrifar allan textann í sama sundurlausa hugsanaflæðis-stílnum. 


Við fáum smá innsýn í lífið eftir herinn. Ein er orðin þunglynd, önnur vinnur á samlokubar og geymir gamlan mann í hlekkjum heima hjá sér á daginn. Það er vissulega fyndnasta, ruglaðasta, hræðilegasta og skrítnasta atriði sögunnar.

Það virðist ekki vera mikill metnaður eða lífsgleði hjá stúlkunum. Maður á væntanlega að skilja það sem svo að hermennskan hafi verið svona skemmandi. Sem er svo sem ekki skrítið, en höfundur hefði þá mátt eyða aðeins meira púðri í að byggja upp karaktera metnaðarfullra menntaskólastelpnanna. Eða kannski er það alls ekki hugmyndin, heldur sú að latar og áhugalausar ungar konur halda áfram að vera latar og metnaðarlausar jafnvel eftir að hafa gegnt hermennsku? Hver veit, ekki ég. Höfundur hjálpar manni lítið við að túlka þessa sundurlausu atburði.

Niðurstaða: Á ákveðinn hátt er bókin áhugaverð innsýn í Ísrael og hvernig það er að búa í ríki sem er við stöðugt stríðsástand. Þetta er bara ekki nógu vel gert. Ég var mjög lengi að lesa þessar 332 blaðsíður. Ég myndi ekki mæla með þessari bók við neinn. Ein stjarna.

Friday, September 27, 2013

Bók #41: TUESDAYS WITH MORRIE

Ég fékk bókina TUESDAYS WITH MORRIE lánaða hjá samkennara mínum. Bókin er stutt, 192 síður. Um er að ræða eins konar samtalsbók. Höfundur er Mitch Albom og fjallar bókin um tengsl hans við háskólaprófessorinn Morrie.


Morrie kenndi Mitch á sínum tíma og áttu þeir gott samband. Hittust gjarnan á þriðjudögum, spjölluðu um fræðin en ekki síður um lífið. Eftir útskrift fjaraði þeirra samband út. Höfundur reynir fyrir sér sem tónlistarmaður en finnur fjölina sína sem blaðamaður. 

Honum tekst að verða einhvers konar stjörnublaðamaður. Verður ríkur af stafinu, vinnur mikið, en er þó alltaf leitandi og vantar lífsfyllingu. Kvöld eitt sér hann viðtal í sjónvarpinu við Morrie gamla. Morrie þjáist af sjúkdómi Lou Gehrigs og er dauðvona. Morrie tekur sínum sjúkdómi af miklu æðruleysi. Vingjarnlegt fas hans og ljúfmennska snertir hjörtu áhorfenda. Mitch ákveður að heilsa upp á sinn gamla lærimeistara.

Morrie tekur vel á móti höfundi og fagnar mjög endurfundunum. Mitch hins vegar er sjálfsmeðvitaður og skammast sín fyrir að hafa ekki haft samband við hann fyrr. Þeir detta þó fljótt í sitt gamla form og ræða um lífið. Þeim verður að ráði að hittast hvern þriðjudag og fljótlega fæðist hugmyndin að bókinni. 



Morrie er mikill viskubrunnur og hver þriðjudagur hefur sitt þema: Ástin, hjónabandið, eftirsjá, dauðinn, fyrirgefning. Morrie talar stundum í tilvitnunum en setur annars oft ástand sitt í samhengi við mikilvægu hlutina í lífinu. Hann sóttist ekki eftir frama eða fé enda er hann ríkur af ástvinum sem vitja hans á dánarbeðinu. - Reyndar getur höfundur þess að sjúkrakostnaðurinn er stjarnfræðilegur og fyrirframgreiðsla vegna bókarinnar hjálpar til að greiða hann.

Höfundur fjallar um þá hluti sem betur mættu fara í hans eigin lífi og hvernig lífssýn Morries hefur fengið hann til að breyta um lífsstíl. Hann sér eftir að hafa drekkt sér í vinnu og týnt sér í lífsgæðakapphlaupinu. Fjallað er um hvernig hann nær tengslum við yngri bróður sinn á ný.

Heilsu Morries hrakar jafnt og þétt. Fyrst er hann nokkuð sprækur, baðar út öllum öngum þegar hann talar og raðar ofan í sig mat. Undir lokin liggur hann rúmfastur, getur varla talað eða kyngt. Þetta er óneitanlega átakanleg lesning og erfitt að fella ekki tár á síðustu blaðsíðunum.


Helsti galli bókarinnar er persóna höfundar. Hún er fyrirferðarmikil og fer nokkuð í taugarnar á mér. Hann lýsir sér sem frekar hrokafullum bjána, en viska Morries á að hafa temprandi áhrif á hann. Mér fannst þetta ekkert sérlega trúverðugt. Kannski er þó nauðsynlegt að hafa þess konar persónu í miðdepli svona bókar til að hún verði ekki samhengislítið safn tilvitnanna í deyjandi mann. Engu að síður fær maður þá tilfinningu að höfundur sé frekar ómerkilegur pappír sem stekkur á karma-vagninn með löndum sínum.

Niðurstaða: TUESDAYS WITH MORRIE er bók sem situr í manni en er þó ekki gallalaus. Höfundur skrifar of mikið um sjálfan sig og gerir ekki nógu mikið af því að setja hugleiðingar Morries í aðeins víðara samhengi. Ég gef bókinni 3 stjörnur en myndi samt mæla með henni við ýmsa. Það er spurning um að horfa á samnefnda kvikmynd.

Monday, September 23, 2013

Bók #40: THIS IS WHERE I LEAVE YOU

Í kjölfar ánægju minnar með bókina HOW TO TALK TO A WIDOWER ákvað ég að taka aðra bók eftir sama höfund á bókasafninu. Bókin kom út árið 2010 og telur 338 síður.


Forsíða kápunnar er ágæt í einfaldleika sínum. Litríkir bókstafir ofan á teikningu af húsi sem er miðpunktur sögunnar. Bakhliðin fær mínusstig. Hún er þakin tilvitnunum með jákvæðum umsögnum um verk höfundar. Þetta er alvarleg synd útgefandans. Bakhliðin á að gefa hugmynd um efni sögunnar og/eða segja frá höfundi. Inni í bókinni er svo vísað í heimildir. Ekki batnar það því ekkert er sagt um nákvæmlega hvaða verk fékk eiginlega þessa frábæru ummæli sem slitin eru úr samhengi. Fáránlegt.

Sagan fjallar um Judd og fjölskyldu hans. Judd er karlmaður um þrítugt sem lendir í alls konar ógæfu á sama tíma. Faðir hans deyr, konan heldur framhjá honum og hann missir vinnuna. Það var auðvitað yfirmaðurinn sem var að sofa hjá konunni.



Í kjölfar andláts föðurins safnast fjölskyldan saman í 7 daga shiva-vöku þar sem hins látna er minnst. Sagan gerist á þessum 7 dögum á æskuheimili söguhetjunnar. Aðrir leikendur eru
  • Systirin Wendy. Falleg og greind. Gift bisnessmanninum Barry. Ekki mjög hamingjusamlega, en þau hafa það allavega gott.
  • Bróðirinn Paul. Myndarlegur sigurvegari. Lenti í slysi í æsku sem hann kennir Judd um. Giftur Alice, fyrrum kærustu söguhetjunnar. 
  • Bróðirinn Philip. Töluvert yngri en hin systkinin. Villingur sem hefur einstakt lag á að kynnast konum
  • Móðirin Hillary. Frjálsleg og hispurslaus, ólíkt eiginmanni sínum heitnum.


Sagan fjallar um okkar mann vinna úr sínum málum í faðmi fjölskyldunnar. Það kemur auðvitað í ljós að hinir hafa líka sinn djöful að draga. Söguþráður er ekki mikill. Við fylgjumst með hverju slysinu á fætur öðru. Þannig er bókin nokkuð farsakennd: Philip stendur uppi á þaki og hótar að fyrirfara sér. Greindarskerti nágranninn fær flogaveikiskast í kjölfar kynmaka. Litli frændinn gubbar yfir alla borðstofuna.

Maður hefur mikla samkennd með söguhetjunni. Heimurinn er á móti honum en okkar maður reynir að gera sitt besta. Sumt er þó ekki sérlega trúverðugt. Judd á að hafa legið í volæði vikum saman. Leigir kjallaraíbúð, hangir heima og borðar pítsur. Fitnar. Virkar sem sagt þunglyndur, en annars er ekkert í sögunni sem styður það. Hann er bara frekar hress og snöggur með tilsvör og virðist eiga nógan séns.

Hér komum við að stærsta galla bókarinnar. Hún er alltof lík fyrri bókinni, How to talk to a Widower. Söguhetjan er nákvæmlega eins persóna. Karlmaður í kringum þrítugt sem er í miklum mínus með sitt líf. Reynir að endurbyggja en heimurinn virðist á móti hinum. Viðkomandi lætur sem hann sé klunnalegur nálægt konum en á samt alltaf auðvelt með að kynnast þeim.


Ýmislegt fleira er líkt með bókunum. Systirin Wendy í þessari bók er mjög líka systurinni Clair í þeirri fyrri. Báðar eru óvenjulega fallegar og greindar. Svona "eldibrandar" sem eru ráðríkar gagnvart bróður sínum en virðast fastar í slæmu hjónabandi.

Niðurstaða:  THIS IS WHERE I LEAVE YOU hefur mjög svipað skemmtanagildi og systurbókin HOW TO TALK TO A WIDOWER. Ég gæti alveg gefið henni fjórar stjörnur. Hinar endurnýttu hugmyndir trufla mig þó og lækka bókina niður í 3 stjörnur. Auðvitað ætlast maður til að fá "meira af því sama" þegar maður heldur tryggð við höfund sem manni líkar við, en fyrr má nú rota en dauðrota. En bókin er alveg þess virði að lesa. Verður spennandi að sjá myndina líka.

Friday, September 13, 2013

Bók #39: COLD SPRING HARBOR

Á bókasafninu rambaði ég á bókina COLD SPRING HARBOR. Ég leigði hana á grundvelli þess að höfundur skrifaði einnig bókina Revolutionary Road. Ég hef að vísu ekki lesið slíka bók en kvikmyndin með Leonardo Di Caprio og Kate Winslet er afar góð. 


Höfundur er Richard Yates. Bókin er frekar stutt, 178 síður. Kápan fær mínusstig fyrir að nafn höfundar kemur ekki almennilega fyrir á forsíðunni. Að öðru leyti er myndin falleg og nokkuð lýsandi fyrir efni bókarinnar.

Bókin segir sögu Evans og gerist í kringum 1940 í Bandaríkjum. Hann var erfiður unglingur en kom sér þó á réttan kjöl, kynnist stúlku, giftist, eignast barn. Það kemur þó í ljós að þetta var slæm ráðstöfun. Ótímabær. Sambandið endist ekki. Í kjölfarið kynnist hann nýrri stúlku, Rachel, og við fylgjumst náið með þeirra sambandi.


Tengdamóðirinn er viss gerandi í þeirra sambandi. Hún stuðlar að því að þau flytja þrjú saman undir eitt þak. Eins og vænta má er þetta ekki frjór hamingju-jarðvegur fyrir ungt fólk. Rachel verður ólétt og við fylgjumst með þeirra lífi þróast. Evan er ekki sérlega lukkulegur í sínu verksmiðju-starfi. Rachel gerir sitt besta til að skapa jákvætt andrúmsloft á heimilinu. Það reynist þó erfitt með móður sína á staðnum. Helsta markmið þeirra gömlu er að leggja undir sig föður Evans sem býr í nágrenninu ásamt veikri eiginkonu.


Það er ekki beinilínis hægt að tala um mikinn söguþráð í þessari bók. Við fylgjumst með fólkinu þjást í gegnum hversdagsleikann og glíma við þá staðreynd að lífið veldur þeim vonbrigðum. Þetta er að mörgu leyti vel gert og mjög svipað þema og í Revolutionary Road. Bókin minnir einnig á áður lesna bók, Tigers in red Weather. Óánægt fólk um miðja tuttugustu öld á austurströnd Bandaríkjanna glímir við þrúgandi hversdagsleikann.  Ég hafði ekki áttað mig á því hve frjór jarðvegur þetta er fyrir bókmenntir. Ég er allavega búinn að fá nóg.


Niðurstaða: COLD SPRING HARBOR er ágæt, en ekkert sérlega eftirminnileg eða frumleg. Ég gef henni 2 stjörnur.

Thursday, September 5, 2013

Bók #38: How to talk to a widower

Ég tók bókina how to talk to a widower á bókasafninu. Eitthvað við kápuna höfðaði til mín. Sennilega Jack Daniels flaskann með hjartalaga sogrörinu. Sagan þekur 341 blaðsíðu og kom út árið 2007. Bókin er eftir Jonathan Tropper. Sá er háskólaprófessor í ensku og hefur skrifað nokkrar bækur.


Söguhetjan er Doug. Hann starfar sem rithöfundur en hefur litla fasta vinnu. Hans gæfa í lífinu er að kynnast henni Hailey. Hún er áratug eldri, fráskilin og móðir drengs á táningsaldri. Doug og Hailey giftast. Eftir hamingjurík ár deyr hún svo í slysi. 

Þegar við kynnumst Doug er ár liðið frá þeim atburði og hann er enn að jafna sig. Doug er aðeins 29 ára. Hann hangir heima, drekkur Jack Daniels og fer í mesta lagi í bíó. Einn. Um miðjan dag.



Í upphafi bókar fer þó ákveðin atburðarrás af stað og Doug byrjar að þróast sem persóna. Fyrrum stjúpsonur hans þarfnast aðstoðar sem og tvíburasystir hans. Bókin er þannig ákveðin þroskasaga, eða úrvinnslusaga. Doug vinnur úr málunum.

Söguhetjan er mjög bitur úr í heiminn. Doug þolir ekki að andlát eiginkonu sinnar hafi nokkur einustu jákvæð áhrif. Hvorki gagnvart honum sjálfum né öðrum. Þannig hefur hann skrifað nokkrar greinar um reynslu sína sem ekkill sem eru mjög vinsælar. Útgefandinn vill að hann skrifi bók og græði fullt af peningum. Doug hugnast það ekki. 

Doug á líka mjög erfitt með að fyrirgefa systur sinni og besta vini að hafa kynnst í útför Hailyar. Það gengur of langt.



Það er einhvern veginn mjög auðvelt að samsvara sér með Doug. Hann er í hlutverki góðlátlega lúsersins. Samt alltaf tilbúinn með fyndinn tilsvör. Stíllinn er mjög læsilegur og maður heldur áfram að fletta. Samt er varla hægt að tala um að það sé mikið plott í sögunni.

Höfundur minnir nokkuð á Nick Hornby, sem er mjög jákvætt. Þetta er svona strákabók. Að sumu leyti minnir þetta líka á bókina Kona fer til læknis og framhald hennar. Stundum finnst manni eins og höfundur sé að skrifa fyrir sjónvarp. Það eru víst þrjár aðrar sögu eftir hann í vinnslu sem kvikmyndir. Ég held að það væri auðvelt að ráða Jason Siegel í hlutverk Dougs og setja myndavél í gang.



Niðurstaða: Ég var mjög ánægður með bókina HOW TO TALK TO A WIDOWER. Ég hlakka til að lesa meira eftir Jonathan Tropper. Ég gef bókinni fjórar stjörnur.

Tuesday, August 20, 2013

Bók #37: Bringing up Bébé

Ég keypti bókina BRINGING UP BÉBÉ á kyndilinn. Mig minnir að ég hafi lesið jákvæða umfjöllun í einhverju tímariti sem ég greip í á bókasafninu. Allavega hafði þetta síast nógu vel inn í undirmeðvitundina til að ég splæsti 15 dollurum í þetta.


Höfundurinn er Ameríkaninn Pamela Druckerman. Hún býr í París með enskum eiginmanni sínum og eignast þar barn. Bean. Höfundur tekur eftir því að frönsk börn virðast almennt haga sér betur en Bean og reyndar almennt þau börn sem hún þekkir frá heimalandinu.

Persóna höfundar er í forgrunni bókarinnar. Þetta er ekki beinlínis leiðarvísir eða sjálfshjálparbók. Að sumu leyti minnir efnið mann á bloggfærslur. Bókin er frekar lengi af stað. Við fylgjumst með Pamelu starfa sem blaðamaður í ýmsum alþjóðlegum verkefnum. Hún er rekin úr vinnunni og endar í París með eiginmanninum. Þar vinnur hún að því að skrifa bók, þó ekki þá sem við erum að lesa heldur aðra sem fjallar um framhjáhald; Lust in Translation.

 

Við fylgjumst sem sagt með Pamelu og Símóni aðlagast frönsku samfélagi, sem gengur ekkert sérstaklega vel. Henni finnast Frakkar dónalegir og stuttir í spuna. Þetta virkar ágætlega á lesandann og fær mann til að trúa að höfundur sé ekki einstrengisleg klappstýra fyrir allt sem franskt er.

Höfundur fer að velta fyrir sér muninum á frönsku og bandarísku uppeldi og leita að lyklinum að góðum aga franskra barna. Fljótlega eftir að dóttirin fæðist fara nágrannarnir að spyrja hvort hún sé farin að sofa í gegnum nóttina. Höfundi finnst þetta fáránleg tilhugsun en frönsku börnin byrja víst mörg að sofa heilu næturnar nokkrum vikum eftir fæðingu. Pamela leitar skýringa á þessu.

Helsta uppgötvun hennar er sú að Frakkar kenni krökkum sínum að vera þolinmóðir allt frá fæðingu. Eitt lykilatriði er að sinna gráti og kvörtunum ekki strax heldur "bíða" alltaf aðeins og vera viss um að barnið sé í alvöru að kvarta.


Það er ýmislegt fleira athyglisvert í þessu. Frönsku börnin haga sér yfirleitt vel í matarboðum og geta beðið eftir matnum sínum eins og fullorðna fólkið. Hérna er þolinmæðin aftur lykilatriði ásamt mikilli áherslu frá unga aldri á að borða á matartímum. Frönskum krökkum er kennt að borða klukkan 8, 12, 16 og 20. Menning fyrir snarli þar á milli er ekki til. 

Annað áhugavert er áhersla franskra foreldra á að hafa tíma fyrir sjálfa sig og að sinna eigin velferð. Í Frakklandi er ekki mikil félagsleg pressa á að gefa brjóst mjög lengi. Akkúrat öfugt við það sem við þekkjum. Almennt er hugmyndafræðin sú að foreldrar eigi ekki að vera fangar barnsins. 


Sum umfjöllunarefni bókarinnar eru minna áhugaverð en önnur. Það er heill kafli um leikskólamál. Ameríkaninn virðist eiga mjög erfitt með að setja barnið sitt á leikskóla. Hérna eru Íslendingar og Frakkar samstíga. 

Niðurstaða: BRINGING UP BÉBÉ er mjög áhugaverð bók um barnauppeldi. Eða kannski frekar heimspeki barnauppeldis. Maður tekur engu bókstaflega, en það er margt í bókinni sem fær mann til að hugsa. Ég gef bókinni 4 stjörnur og mæli með henni við alla sem eiga ung börn.

Friday, August 16, 2013

Bók #36: MENNIRNIR MEÐ BLEIKA ÞRÍHYRNINGINN

Nýlega kom bókin MENNIRNIR MEÐ BLEIKA ÞRÍHYRNINGINN út á íslensku. Sagan kom út á frummálinu árið 1972. Bókin segir frá dvöl homma í fangabúðum nasista í síðari heimsstyrjöld. Höfundur samkvæmt bókarkápu er Heinz Heger. Samkvæmt því sem eftirmálinn skýrir frá er það dulnefni manns að nafni Hans Neumanns. Hans þessi skrifaði söguna eftir Josef Kohout. Jósef sá, er sem sé hinn eiginlegi sögumaður. Myndin á bókarkápunni er af honum. Þýðandi bókarinnar er Guðjón Ragnar Jónasson, samkennari minn í MR.


Í byrjun er sögumaður háskólanemi í Vín (ekki sögulega nákvæmt, samkvæmt eftirmála). Hann á í ástarsambandi við annan mann í háskólanum. Gestapó kemst yfir ljósmynd þar sem einhver ástarorð þeirra á milli standa. Sögumaður er handtekinn og dæmdur í 6 mánaða fangelsisvist. Hana afplánar hann við ágætan aðbúnað en er svo í kjölfarið sendur í fangabúðir.

Stíll bókarinnar er frekar stirðbusalegur og harðsoðinn. Sum atriði eru ekki dramatíseruð eins mikið og maður á von á. Þetta atriði, að vera settur úr fangelsi í fangabúðir í þýskalandi er auðvitað reiðarslag, en það er ekki beinlínis fjallað um það þannig í bókinni. Eftirmáli Þorvaldar Kristinssonar segir að hvorki Hans né Josef hafi verið miklir stílmenn. Það er þó eitthvað frískandi við þetta harðsoðna form. Minnir mig sannast sagna á Hemingway!

Strax á leiðinni í fangabúðirnar byrja hörmungarnar. Í lestinni eru tveir fangar sem höfðu verið dæmdir fyrir morð. Þeir draga upp úr söguhetjunni hvað hann hefur gert af sér og hafa mestu skömm á honum. Þó ekki meiri en svo að þeir neyða hann til að eiga við sig munnmök. Þetta þema kemur fyrir aftur og aftur. Hinn venjulegi maður hefur skömm á hinni opinberu samkynhneigð og því að elska annan karlmann. Smávegis kynlíf með öðrum karlmanni er þó alls staðar.


Lýsingarnar á aðbúnaði í fangabúðunum eru hræðilegar. Pyntingar og refsingar fyrir minnstu "brot". Sumt af þessu hefur maður lesið áður. Höfndur varpar þó áhugaverðu ljósi á þau úrræði sem fangar hafa til að komast af. Til að fá aukna matarskammta og fleira er nauðsynlegt njóta verndar flokkstjóra. Sú vernd er keypt með því að "láta vilja þeirra" og gerast elskhugi.

Með þessum hætti tekst sögmanni að lifa af. Í gegnum tengsl sín fær hann síðar sjáfur stöðu flokksstjóra og er þá eins konar yfirmaður annarra fanga. Síðustu árin í fangabúðunum verða þannig nokkuð bærilegri.

Ein afleiðing hins knappa stíls er að sagan er mjög stutt, 142 síður. Það er í rauninni mikill kostur og gerir bókina áhrifaríkari en ella. Eftir standa mjög sterkar myndir af ofbeldinu, kúguninni og ekki síst hatrinu og tvískinnungnum í garð samkynheigðra. 


Niðurstaða: MENNIRNIR MEРBLEIKA ÞRÍHYRNINGINN er mögnuð saga. Höfundur stráir samfélagsádeilu inn í textann og ljóst er að samfélagið hefur ekki þokast langt í réttindum samkynhneigðra þegar bókin kemur úr 1972. Það er ánægjulegt að ástandið sé betra nú til dags en bókin er þörf áminning um mannhatrið sem viðgekkst gagnvart samkynhneigðum á 20.öld. Ég gef henni fjórar stjörnur.